Það er að mörgu að huga þegar kemur að því að kaupa eða selja fasteign og í mörgum tilvikum eru það viðskipti sem fólk fer ekki oft í gegnum á ævi sinni.

Því er gott að hafa góðan gátlista – og öruggan aðila til að leita ráða hjá. 

Söluumboð
Áður en heimilt er að bjóða eign til sölu er það lagaskylda að útbúa söluyfirlit yfir eignina. Með söluyfirliti er átt við yfirlit, þar sem greint er frá öllum atriðum er varða eignina, svo sem stærð eignar, byggingarefni, stöðu veðlána o.fl. Til þess að unnt sé að útbúa söluyfirlitið eins og lög krefjast, verður að útvega eftirtalin skjöl og koma þeim á fasteignasöluna innan þriggja daga frá því söluumboð er undirritað eða að fela fasteignasölunni að útvega gögnin.

Veðbókarvottorð
Veðbókarvottorð fást hjá sýslumannsembættinu í Reykjavík ef eignin er í Reykjavík, Seltjarnarnesi eða í Mosfellsbæ, en annars á skrifstofu viðkomandi sýslumannsembættis.

Afrit allra áhvílandi skuldabréfa
Á veðbókarvottorði kemur fram hvaða skuldir (veðbönd) hvíla á eigninni og hvaða þinglýstar kvaðir eru á henni. Ef ekki eru til afrit af öllum veðskuldabréfum eða öðrum veðböndum (s.s. tryggingarbréfum, lögtökum, fjárnámum), sem á eigninni hvíla, þarf að útvega ljósrit af skjölunum. Ljósritin fást á sama stað og veðbókarvottorðið.

Kvittanir síðustu afborgana lána og stöðuyfirlit
Hér er átt við kvittanir allra áhvílandi lána, jafnt þeirra sem eiga að fylgja eigninni (verða yfirtekin) og þeirra sem seljandi hyggst flytja af eigninni (aflýsa). Ef síðustu kvittanir eru ekki fyrirliggjandi, getur dugað að leggja fram ógreidda greiðsluseðla (t.d. gíróseðla) vegna síðustu eða næstu gjalddaga lánanna. Ennfremur verður að leggja fram yfirlýsingu eða útskrift viðkomandi bankastofnunar eða innheimtuaðila skuldar um stöðu skuldarinnar.

Veðflutningar
Athuga þarf hvort ætlunin er að kaupandi yfirtaki allar skuldir sem hvíla á eigninni. Hafi seljandi hug á því að flytja einhverjar skuldir með sér, eða ef á eigninni hvíla veðskuldir frá öðrum aðilum (lánsveð) þarf seljandi að ræða meðferð þess við starfsmann fasteignasölunnar.

Yfirlýsing húsfélags um væntanlegar eða yfirstandandi framkvæmdir
Skv. lögum er ekki heimilt að ganga frá kaupsamningi ef yfirlýsing húsfélags liggur ekki fyrir. Hér verður því að láta formann eða gjaldkera húsfélagsins útfylla sérstakt eyðublað sem ber yfirskriftina “Yfirlýsing húsfélags”, en eyðublaðið fæst hjá fasteignasölu/um þeirri/þeim er annast sölu eignarinnar. Ath.: Samkvæmt lögum um fjöleignarhús ber eiganda fasteignar að skila inn síðasta ársreikningi húsfélagsins.

Ljósrit afsals
Afsal fyrir eigninni á seljandi að hafa undir höndum og þarf fasteignasalinn að fá ljósrit af því. Ef afsalið er glatað er hægt að fá ljósrit af því hjá viðkomandi sýslumannsembætti. Afsalið er nauðsynlegt, því það er eignarheimild seljanda fyrir eigninni og þar kemur fram lýsing á henni. Sé seljandi ekki búinn að fá afsal fyrir eigninni er mikilvægt að hann ræði það við starfsmenn fasteignasölunnar áður en lengra er haldið.

Ljósrit eignaskiptasamnings
Hafi verið gerður eignaskiptasamningur um eignina þarf ljósrit af honum að liggja fyrir við undirritun kaupsamnings.

Umboð
Ef eigandi (eigendur) annast ekki sjálfur sölu eignarinnar, þarf umboðsmaður að leggja fram umboð, þar sem eigandi eða eigendur veita honum umboð til þess fyrir sína hönd að undirrita kauptilboð, kaupsamning, afsal, veðheimildir og önnur nauðsynleg skjöl vegna sölu eignarinnar og til þess að tilgreina greiðslustað kaupverðsins. Tveir vottar þurfa að votta rétta dagsetningu umboðsins og undirskrift og yfirlýsingu þeirra um fjárræði, þ.e. þeirra sem umboðið veita. Ef um er að ræða íbúðarhúsnæði og eigandi býr á eigninni, sumarbústað, eða húsnæði notað fyrir atvinnurekstur hjóna, þarf samþykki maka eiganda fyrir sölunni, þrátt fyrir að einungis annar aðilinn sé skráður þinglýstur eigandi eignarinnar. Starfsmenn fasteignasölunnar geta aðstoðað við gerð umboðsins.

Yfirlýsingar
Ef sérstakar kvaðir eru á eigninni s.s. forkaupsréttur umferðarréttur, viðbyggingarréttur o.fl. þarf að leggja fram þau skjöl, þar sem þetta er tekið fram. Ljósrit af slíkum skjölum fást yfirleitt hjá viðkomandi sýslumannsembætti. Þegar kauptilboð hefur verið samþykkt þarf að afla samþykkis forkaupsréttarhafa. Ef dánarbú er að selja eign þarf að leggja fram leyfi til einkaskipta frá viðkomandi skiptaráðanda. Ef verið er að selja eign vegna hjónaskilnaðar eða sambúðarslita þurfa báðir aðilar að undirrita söluumboðið til fasteignasalans.

Teikningar
Leggja þarf fram staðfestar byggingarnefndarteikningar af eigninni. Hægt er að fá ljósrit af þeim hjá byggingafulltrúa viðkomandi sveitarfélags. Í Reykjavík fást ljósrit hjá Byggingarfulltrúanum, Borgartúni 3, II hæð.

Tilkynning um fasteignamat
Hér er um að ræða seðil sem Fasteignamat ríkisins sendir öllum fasteignaeigendum í upphafi árs, og menn nota m.a. við gerð skattframtals. Fasteignamat ríkisins er til húsa að Borgartúni 21, Reykjavík, sími 561 4211.

Annað
Ef seljandi hefur undir höndum einhverjar frekari upplýsingar sem máli geta skipt vegna sölu eignarinnar, ber að leggja þær fram eða upplýsa um þær. Hér má nefna upplýsingar um almennt ástand eignarinnar, þekkta galla eða meinbugi o.s.frv.

Aðstoð fasteignasala
Í mörgum tilvikum mun fasteignasalinn geta aðstoðað við útvegun þeirra skjala sem að ofan greinir. Fyrir þá þjónustu þarf að greiða samkvæmt gjaldskrá viðkomandi fasteignasölu, auk beins útlagðs kostnaðar fasteignasalans við útvegun skjalanna. Í flestum tilvikum er slíkt ódýrara en að taka sér frí frá vinnu.

Greinasafn